Um Skjálftafélagið og Skjálftasetrið

Þann 14. nóvember 2007 var Skjálftafélagið, Félag áhugafólks um Jarðskjálftasetur á Kópaskeri, formlega stofnað og voru stofnfélagar 36.
Strax var hafist handa við að sækja um styrki og safna saman gögnum um Kópaskersskjálftann, þ.e. blaðagreinum, myndum, frásögnum og munum.
Þann 17. júlí 2008 var svo opnuð forsýning Skjálftasetursins. Var hún opin í 5 vikur og var henni mjög vel tekið. Norðurþing sýndi þann rausnarskap að lána Skólahúsið á Kópaskeri endurgjaldslaust undir sýninguna á meðan skóli var ekki starfandi.
Þá var haldið áfram að útbúa fleiri spjöld og fá ýmsa aðra muni, s.s. jarðskjálftamæli ofl. Þann 17. júní 2009 var svo Skjálftasetrið formlega opnað og var það opið alla daga frá kl. 13:00 - 17:00 til 31. ágúst 2009.

Á Skjálftasetrinu er fyrst og fremst verið að minnast Kópaskersskjálftans sem varð 13. janúar 1976 og mun hafa verið um 6,3 stig á Richter. Hann var stærsti skjálftinn sem kom í skjálftahrinu sem var búin að standa linnulaust síðan 20. desember þegar Kröflueldar hófust.

Mest varð þó vart við skjálftana í miðhluta Kelduhverfis og  á Sandsbæjunum í Öxarfirði til að byrja með, þó menn hafi fundið fyrir þeim í Núpasveit og á Kópaskeri, en ekki í eins miklum mæli. Stóri skjálftinn átti upptök sín  um það bil 12 km suðvestur af Kópaskeri, úti á sjó, en sem betur fer var þetta svokallaður skágengisskjálfti,  þar af leiðandi kom engin flóðbylga í kjölfar hans, en sjórinn kraumaði allur eins og í grautarpotti.

 

 

 


Knúið áfram af 123.is